Kristín Hrefna Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Flow
„Fréttir síðustu daga eru ekki fyrstu erfiðu fréttirnar sem berast okkur til eyrna af Covid veirunni og alveg örugglega ekki þær síðustu. Þetta eru heldur örugglega ekki fyrstu erfiðu fréttirnar sem þú færð í lífinu og alls ekki þær síðustu. Þú getur hins vegar stjórnað því hvernig vondar og erfiðar fréttir fara með þig og þína líðan,“ segir Kristín Hrefna Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Flow í nýjum pistli á Smartlandi:
Stundum er bara eins og tankurinn sé tómur og þegar enn ein vonda fréttin lemur á manni með að maður komist ekki lengur í ræktina eða sund þá líður manni eins og manni sé öllum lokið. En hvenær fylltirðu á tankinn síðast?
Svarið gæti verið (og sérstaklega ef þú ert alveg búinn á því): hvernig á maður að geta það?! Ég hef ekkert komist í frí síðan í fyrra, nú er búið að loka ræktinni, jógastöðvum og ég er bara á síðustu metrunum hérna!
Margir eru vanir að fá sína áfyllingu á sólarströnd á sumrin og eru því ráðvilltir núna. Þeir eru þá kannski þyngri en venjulega núna eða neikvæðari. Sem er skiljanlegt. Það eru hinsvegar aðrar leiðir til sem geta hjálpað og meira að segja mjög margar. Þær hafa ekki verið bannaðar vegna Covid og það þarf ekki að fljúga til útlanda til að sækja þær.
Þú þarft hins vegar að læra, skilja og æfa þig smávegis til þess að komast þangað en þú getur hugsað þér að það sé svona sviðað eins og maður þarf jú að pakka fyrir utanlandsferð, koma sér á flugvöllinn og fljúga út til þess að geta byrjað að slaka á með sandinn á milli tánna.
Fyrsta skrefið, sem er oft erfiðast fyrir fólk, er að byrja. Kveiktu á leiddri hugleiðslu og gerðu það sem þér er sagt. Þú finnur til dæmis ókeypis leiddar hugleiðslur á flow.is/hugleiddununa. Þetta tekur bara 4 mínútur. Kannski gerist ekkert stórkostlegt í fyrsta sinn, það er allt í lagi. Eftir nokkra mánuði verður þú fegin að þú byrjaðir í dag.
Næsta skref er svo ekki flókið en reynir á þrautseigjuna. Þú þarft að endurtaka skref eitt á hverjum degi. Mundu, þetta tekur bara 4 mínútur. Það eiga allir þann tíma til að gefa sjálfum sér.
Það er mikilvægt að gera það á hverjum degi. Það dettur engum í huga að reyna að keyra rafmagnslausan bíl í umferðinni eða að reyna að hringja úr batteríslausum síma þó þú hafir hlaðið í gær.
Þessa dagana sveimar fólk um heima hjá sér með batterísljósið blikkandi því það hefur ekki hlaðið sig í marga mánuði. Sumir enda þá á því að garga á sína nánustu síðustu orkudropunum eða ropa þeim yfir internetið í hræðslu eða reiði. Þess í stað býð ég þér upp á hlýja og góða áfyllingu með hugleiðslu.
Fyrr en varir verður þú farin að geta valið hvaða fréttir hafa áhrif á þig og valið að veita gleðinni í þínu lífi meira rými en því neikvæða sem virðist ætla að troðast inn í lífi þitt. Þá þakkar þú fyrir að hafa byrjað í dag.
Comments